top of page
  • Writer's pictureFVH

Niðurstöður kjarakönnunar FVH kynntar

Föstudaginn 5. apríl kynntum við helstu niðurstöður úr nýjustu kjarakönnun FVH sem var framkvæmd dagana 23. febrúar til 15. mars á fjarfundi. Á fundinum, sem nú er hægt að nálgast upptöku af á innri vef FVH, fluttu Halldór Valgeirsson frá EMC markaðsrannsóknum, Geirlaug Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Hagvangs, og Elka Ósk Hrólfsdóttir, formaður FVH og verkefnastjóri í fyrirtækjaráðgjöf Arion banka, erindi um niðurstöðurnar og þýðingu þeirra fyrir félagsfólk. Einnig voru þar veitt hagnýt ráð um hvernig hægt sé að nýta þessar upplýsingar gagnvart núverandi eða tilvonandi vinnuveitendum. 





Könnunin er sú eina sem gerir viðskipta- og hagfræðingum kleift að bera saman laun sín við aðra með sömu menntun, í sambærilegum störf, mannaforráð og aldur. Könnunin veitir innsýn í stöðu og þróun launa á meðal viðskipta- og hagfræðinga á Íslandi.


Hækkunin frá síðustu könnun, sem framkvæmd var árið 2022 mældist 7%. Karlar mældust með hærri tekjur en konur og reyndist munurinn vera um 180 þ.kr. Rúmlega 100 þ.kr. munur var á milli þeirra sem eru búsett á höfuðborgarsvæðinu miðað við landsbyggðina. Hvorki kynjamunur né búsetumunur er leiðréttur út frá eðli starfa, og geta því aðrir þættir en kyn eða búseta skýrt launamuninn, t.d. starfsvettvangur, starfsheiti, mannaforráð eða stærð fyrirtækja.


Viðskiptafræðingar mælast með ögn hærri laun en hagfræðingar en hæstu launin hafa þau sem hafa bæði viðskipta- og hagfræðimenntun. Eftir því sem menntunarstig hækkar hækka launin skv. niðurstöðum könnunarinnar. Til að mynda sýnir könnunin fram á að þau sem bæta við sig mastersgráðu eru með um 200 þ.kr. hærri laun en þau sem einungis hafa bachelor gráðu. Einnig kom fram skýr tröppugangur eftir því sem mannaforráðin eru meiri.




 

Að auki býður FVH upp á launareiknivél, sem byggð er á gögnum könnunarinnar, og er aðgengileg á innri vef félagsins. Þetta tól er hannað til að hjálpa félagsfólki að átta sig á eigin stöðu innan launamarkaðarins og styðja við upplýstar ákvarðanir í launaviðræðum. Sú nýbreytni við launareiknivélina í ár er að kyn er ekki lengur inn í líkaninu sem forspárbreyta enda ekki eðlilegt að kyn sé notað til grundvallar launaákvarðana.










314 views0 comments
bottom of page