top of page
Search

Leiðin að fjárhagslegu sjálfstæði

  • Writer: FVH
    FVH
  • Nov 5
  • 2 min read

Updated: Nov 20

Við þökkum frábærar viðtökur á fyrsta viðburði vetrarins þegar FVH tók höndum saman með Arion banka til að ræða Fjárhagslegt sjálfstæði.


ree

Fyrst tóku þeir til máls Kolbeinn Marteinsson og Gunnar Dofri Ólafsson höfundar Leitarinnar að peningunum og komu með góð ráð til að minnka skuldir og setja sér markmið þegar kemur að fjármálum.

Þegar þeir voru spurðir um eitt skothelt ráð nefndu þeir það að setjast niður í lok árs og taka saman allar skuldir heimilisins og setja sér það markmið að skulda minna í lok næsta árs en í upphafi. Slíkt markmið væri til þess fallið að hafa áhrif á kauphegðun allt árið. Þeir bentu líka á að fjárhagslegir ósiðir, eins og það að eyða öllum fermingarpeningunum sínum strax þegar maður fær þá í hendurnar, eru ósiðir sem við eigum til að taka með okkur út í lífið, það er eins gott að byrja strax að taka til hliðar og fjárfesta ef við viljum öðlast fjárhagslegt sjálfstæði.


Snædís Ögn Flosadóttir forstöðumaður markaða hjá Arion banka fór yfir hvernig best er að byrja að fjárfesta. Hún tók skemmtilegt dæmi þar sem hún líkti fjárfestingum við ferðalag þar sem við þyrftum að byrja á kunnulegum slóðum með búnað og í umhverfi sem við þekktum nokkuð vel áður en við hættum okkur í meiri ævintýri á framandi slóðir sem krefðist reynslu og dýpri þekkingar. En þó væri afar mikilvægt að undirbúningur verði ekki það mikill að ferðin sé aldrei farin.


ree

Að lokum kom saman pallborð fyrirlesara og Aníta Rut Hilmarsdóttir frá Fortuna Invest bættist í hópinn. Fortuna Invest hefur einmitt náð gríðarlegum árangri í að setja fram efni um fjárfestingar á skiljanlegan og einfaldan hátt svo það höfði til aðila hvar sem þeir eru staddir í fjárfestingarferli sínum eða fjármálum. Aníta setti fram smá hugvekju um hugræna tengingu fólks við hlutabréfakaups vs. almenn vörukaup. Þar tók hún sem dæmi þegar keyptur er sumarlegur kjóll til að nota í brúðkaup fyrir 20.000 kr. Þegar kjólinn hefur verið notaður einu sinni til tvisvar þá er hann í raun orðinn verðlaus fyrir kaupandann og 20 þúsund kallinn fokinn út í bláinn. Hins vegar miklar fólk það um of fyrir sér að kaupa hlutabréf fyrir 20 þúsund kall jafnvel þó svo að ólíklegt sé að allt verðgildi falli 100% niður þó svo að í harðbakann hjá tilteknu fyrirtæki slái. Fólk mætti því vera óhræddara að prófa sig áfram með hlutabréf - hægt sé að fjárfesta fyrir verðgildi 2 kaffibolla á mánuði.


 Tryggvi Jarl Sveinsson stýrði pallborðinu af mikilli snilli með fjölbreyttum spurningum sem snertu bæði á persónulegum fjármálum pallborðsgesta sem og stöðu á hlutabréfamarkaði.


Helsti lærdómur fundarins mætti draga saman í slanguryrðið:


,,Just do it" - ekki eyða tíma í að leita að besta sparnaðarreikningnum - byrjaðu bara að spara. Opnaðu heimabankann og tileinkaðu þér yfirsýn ekki seinna en í dag!


 
 
 

Comments


bottom of page