top of page
Search

Arion banki Þekkingarfyrirtæki ársins

  • Writer: FVH
    FVH
  • May 20
  • 2 min read

Arion banki hlaut Þekkingarverðlaun Félags Viðskipta- og Hagfræðinga (FVH) 2025 þann 15. Maí sl. en í ár voru verðlaunin veitt fyrirtæki sem hefur þróað eða innleitt ferli sem auðvelda starfsfólki að samræma vinnu og barneignir með það að markmiði að viðhalda þekkingu innan fyrirtækisins og skapað jákvæð áhrif á rekstur þess og samfélagið í heild sinni. 

Helga Halldórsdóttir, forstöðumaður mannauðssviðs Arion banka tekur við verðlaunaskjali frá Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, verndara verðlauna.
Helga Halldórsdóttir, forstöðumaður mannauðssviðs Arion banka tekur við verðlaunaskjali frá Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, verndara verðlauna.

Þekkingarverðlaun Félags viðskipta- og hagfræðinga voru afhent í 25. skiptið af Forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur. Dómnefnd Þekkingarverðlaunanna var skipuð einstaklingum með víðtæka reynslu úr atvinnulífinu: Einari Þorsteinssyni, oddvita Framsóknar í borgarstjórn Reykjavíkur, Hörpu Magnúsdóttur, stofnanda og framkvæmdastjóra Hoobla, Herdísi Helgu Arnalds, stofnanda og framkvæmdastjóra Blómstra og Journey og fyrrum formanni FVH, ásamt Telmu Eir Aðalsteinsdóttur varaformanni FVH og Jóhanni Sveini Friðleifssyni, stjórnarmanni FVH

 

Fjölskylduvæn stefna með hjarta

Það sem vakti sérstaka athygli dómnefndar var djúpstæður metnaður Arion banka til að skapa fjölskylduvænt vinnuumhverfi sem styður við jafnvægi á milli einkalífs og vinnu. Stefna bankans er ekki einungis á blaði heldur virkur hluti af menningu fyrirtækisins sem endurspeglast meðal annars í því að bankastjóri, Benedikt Gíslason, situr sjálfur í jafnréttisnefnd.

 

Meðal aðgerða sem Arion hefur hrint í framkvæmd eru:

  • Trygging 80% launa og orlofsávinnslu á meðan fæðingarorlofi stendur

  • Dagvistunarúrræði fyrir börn starfsfólks á aldrinum 12–24 mánaða

  • Kveðju og endurkomusamtöl stjórnenda við starfsfólk sem fer í fæðingarorlof

  • Sveigjanleiki við endurkomu úr fæðingarorlofi

  • Fjölskylduvæna viðburði á vegum starfsmannafélagsins, svo sem jólatrésferðir, íþróttaskóla og fjölskylduhátíðir

 

Það var einróma álit dómnefndar að Arion hefði svo sannarlega með eftirtektarverðum og markverðum hætti þróað og innleitt ferli sem auðvelda starfsfólki sínu að samræma vinnu og barneignir og sýnt að aðgerðirnar hafa skilað mælanlegum árangri og haft jákvæð áhrif á rekstur fyrirtækisins og samfélagið.

 

Við viðtöku verðlaunanna sagði Helga Halldórsdóttir, forstöðumaður mannauðssviðs: “Við þökkum kærlega fyrir þessa viðurkenningu. Hún hvetur okkur til að halda áfram að vera í fremstu röð fyrirtækja á Íslandi í að skapa eftirsóknarvert starfsumhverfi með áherslu á jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs.” 

 

Syndis hlaut Þekkingarviðurkenningu FVH 2025


Þá hlaut Syndis Þekk­ing­ar­viður­kenn­ingu FVH árið 2025. Syndis hefur stigið merk skref til stuðnings við starfsfólk sitt sem er í barneignarferli og hefur meðal annars tryggt foreldrum launað leyfi allt að 4 vikum fyrir settan fæðingardag án skerðingu orlofs, ávinnslu orlofs í fæðingarorlofi, að launaþróun staðni ekki þrátt fyrir orlofstöku, hlutastarf að loknu fæðingarorlofi, skýrt verklag um yfirfærslu þekkingar áður en starfsmaður fer í orlof og sveigjanlegan vinnutíma að fæðingarorlofi loknu. Við yfirferð á svörum Syndis þótti dómnefnd skína í gegn að fámennur vinnustaður gæti vel lagt sitt af mörkum við að styðja við foreldra þegar kemur að því að samræma vinnu og barneignir. 


Stjórn FVH óskar Arion banka og Syndis innilega til hamingju með verðlaunin.


Haraldur Guðjónsson Thors ljósmyndari tók myndir frá afhendingu verðlaunanna.



 
 
 

Comments


bottom of page