top of page
Search

Ásdís Kristjánsdóttir hagfræðingur ársins

  • Writer: FVH
    FVH
  • May 26
  • 2 min read

Stjórn Félags viðskipta- og hagfræðinga hefur veitt Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra Kópavogs, nafnbótina hagfræðingur ársins 2025.


Ásdís hefur leitt umfangsmiklar breytingar sem bæjarstjóri Kópavogs frá árinu 2022. Hún hefur sýnt hugrekki í ákvarðanatöku og festu í framkvæmd. Má þar nefna róttækar en markvissar breytingar á skipulagi leikskólamála, sem skilað hafa sér í bættri nýtingu og þjónustu. Einnig má nefna hagræðingu í rekstri bæjarins og lækkun fasteignaskatta og annarra fasteignagjalda sem nemur tæpum milljarði króna – ávinningur sem kemur bæði bæjarfélaginu og íbúum þess til góða. Ásdís hefur einnig sýnt aðhald og ábyrgð í rekstri, meðal annars með því að beita sér fyrir breytingum á kjörum kjörinna fulltrúa og leggja áherslu á gagnsæi í krefjandi kjarasamningum. Þessi nálgun endurspeglar ekki aðeins skilning á hagfræði heldur líka djúpan vilja til að þjóna samfélaginu af heilindum”. Segir í tilkynningu frá stjórn Félags viðskipta- og hagfræðinga.


Áður en hún tók við bæjarstjórn starfaði Ásdís í áratug í lykilhlutverkum innan íslensks atvinnulífs – meðal annars sem forstöðumaður efnahagssviðs og aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hún hefur verið sýnileg í þjóðfélagsumræðu um efnahagsmál, verið rödd fyrir umbætur og lagt sitt af mörkum til skýrari stefnumótunar – jafnt fyrir opinbera aðila sem atvinnulífið í heild. Ásdís er menntuð bæði í iðnaðarverkfræði og hagfræði og sameinar þannig tæknilega innsýn og djúpan skilning á hagkerfinu. 


„Það er mikill heiður að fá þessa viðurkenningu. Í starfi mínu sem bæjarstjóri hef ég lagt ríka áherslu á að hafa jákvæð áhrif á okkar nærsamfélag og ráðstafa takmörkuðum fjármunum skattgreiðenda og gæðum með skynsamlegum hætti. Hagfræðin er félagsvísindagrein og snýst um að greina og hafa áhrif á málefni sem snerta okkar daglega líf og er því góður grunnur í starfi mínu sem bæjarstjóri. Ég á mér margar fyrirmyndir en fyrst og fremst horfi ég til stjórnmálamanna sem þora að gera breytingar í þeim tilgangi að þróa áfram samfélagið í jákvæða átt. Það gengur vel í Kópavogi og eftir því er tekið og ég er um þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að sinna þessu starfi.“ segir Ásdís um viðurkenninguna.

Stjórn Félags viðskipta- og hagfræðinga er stolt af því að veita Ásdísi þennan verðskuldaða heiður. Hún er bæði leiðtogi og fyrirmynd – fyrir bæði þá sem starfa í opinberri þjónustu og ungt fólk sem horfir til framtíðar. Hún hefur sýnt að með fagmennsku, festu og kjarki er hægt að móta samfélagið til hins betra.

Telma Eir Aðalsteinsdóttir, varaformaður FVH og Þórarinn Hjálmarson, gjaldkeri FVH afhentu Ásdísi viðurkenninguna hagfræðingur ársins.
Telma Eir Aðalsteinsdóttir, varaformaður FVH og Þórarinn Hjálmarson, gjaldkeri FVH afhentu Ásdísi viðurkenninguna hagfræðingur ársins.

Félagið óskar Ásdísi innilega til hamingju með nafnbótina Hagfræðingur ársins 2025.

Ásdís ásamt Önnu Margréti Steingrímsdóttur, framkvæmdastjóra FVH
Ásdís ásamt Önnu Margréti Steingrímsdóttur, framkvæmdastjóra FVH

 
 
 

Comments


bottom of page